154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, skerðingarmörkin eru mjög áhugaverð. Þau eru aðeins mismunandi milli öryrkja og eldra fólks, maður verður að átta sig á því, það hafa verið breytingar á mismunandi stöðum. Þau eru núna komin upp í 2,4 milljónir á ári hjá eldra fólki, það var 1,2 fyrir ekki svo löngu síðan, held að það hafi verið árið 2018, ég man það ekki alveg, maður þarf að hafa þetta fyrir framan sig, þetta eru svo margar breytingar fram og til baka. Alla vega, það áhugaverða sem mér finnst þar er að árið 2016 þegar voru gerðar breytingar í flýti í lok kjörtímabilsins, eftir Panama-hrunið, þá var verið að reyna að einfalda kerfið en öryrkjar vildu ekki vera með í þeirri einföldun, í þessari flýtivinnu sem var í gangi. Þá þurfti að skipta upp lögunum eftir því hvort það átti við um öryrkja eða eldra fólk. Í þeim flýti virðist hafa gleymst að bæta við heimild til að undanskilja lífeyrissjóðstekjur sem atvinnutekjur. Það af leiðandi ættu lífeyrissjóðsgreiðslur að vera teknar sem atvinnutekjur og telja upp í sérstaka frítekjumarkið fyrir öll árin en gera það ekki, Tryggingastofnun framkvæmir það ekki. (Forseti hringir.) Það er mjög áhugavert og það er mál sem við vorum að reyna að skoða í fjárlaganefnd en er nú komið inn í velferðarnefnd og ég vonast til að við sjáum árangur af þeirri vinnu á þessu þingi.